25.2.2007 | 00:33
Minn er víst stærri en þinn ...
Björn Ingi gerir umfjöllun Ríkisútvarpsins um landsfund VG að umræðuefni á bloggi sínu á föstudag http://bingi.blog.is/blog/bingi/entry/131239/.
Þar býsnast bingi yfir andakt þeirri sem hafi ríkt hjá þingfréttamanni RÚV, enda hafi sá hinn sami greinilega hrifist með í stemmingunni og lái honum hver sem vill. Það getur þurft sterk bein til að standast seiðinn sem er galaður á svona heittrúarsamkomum og var enda ekki óalgengt hér áður fyrr að þeir sem slæddust í gamladaga inn á samkomu hjá Hjálpræðishernum í þeim tilgangi einum að hleypa henni upp kæmu þaðan út frelsaðir menn og búnir að afhenda Jesu Kristi hjarta sitt til frambúðar.
Í framhaldi fer bingi að leggja út af fjölda fundarmanna sem honum skilst að hafi verið um 500. Þetta sé hinsvegar verulega aum tala; oft hafi fulltrúfar á landsfundum Framsóknarflokksins verið ríflega tvöfalt það margir auk þess sem fleiri hafi gengið í Framsóknarflokkinn en VG á liðnu ári. Fulltrúar á landsfundi Frjálslyndra hafi verið á annað þúsund (þar miðar hann líklega við tölu greiddra atkvæða í kosningum á fundinum), fulltrúar á landsfundum Samfylkingarinar og Sjálfstæðisflokksins hafi einnig verið minnsta kosti tvöfalt fleiri og ekki þótt sérstakt fjölmiðla efni.
Þá fer bingi að velta fyrir sér hve fjölmennur flokkur VG sé. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að þeir séu með nýorðnum viðbótum, 3.000. Þetta finnst binga lélegt; að svona smáflokkur skuli hafa annað eins fylgi.
En skoðum aðeins hvernig þetta virkar í raunveruleikanum í hinum stóra heimi. Heldur bingi í raun og veru að það sé eitthvert samhengi milli fjölda í "flokknum" og áhrifum, völdum eða "fylgi".
Skoðum dæmi. Kommúnistaflokkur Kína er að vísu fjölmennasta stjórnmálahreifing heims með 70.000.000 félaga (jú það er rétt, sjötíu milljónir). Það er samt innan við 5% af þjóðinni, Kommúnistaflokkur Vietnam telur 3.1% íbúa, Kommúnistflokkur Sovétríkjanna sálugu komst upp í 10% fullorðinna landsmann skömmu fyrir andlátið en taldi einungis um 200.000 þegar hann komst til valda, Nasistar í Þýskalandi voru tvær milljónir þegar þeir komust til valda en fengu samt rúmlega 17 milljónir atkvæða, hið sama var uppi á teningnum á Ítalíu 1922 þegar Fasistar Mussolinis komust þar til valda.
Mér sýnist því sagan færa okkur heim sanninn um að öfgaflokkar þurfa ekki að vera íkja-fjölmennir til að ná til sín fylgi eða völdum; þetta er spurning um markaðssetningu og að vera réttur aðili á réttum stað á réttum tíma.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.