Hvað sagði ég ekki?

Í gær fjallaði ég lítillega um kosningáherslur VG hér á síðunni og leist ekki á blikuna. Eini ljósi punkturinn væri hins vegar að sennilega mætti treysta Steingrími til að tala þetta fylgi niður í eðlilega stærð áður en kjördagur rynni upp.

"Sjaldan bregður mær vana sínum, meig hún undir enn í nótt" segir hið fornkveðna og mikið þótti mér vænt um hvað hann blessaður brást vel við áheitinu í Silfir Egils í gær. Er það ekki makalaust að maðurinn skuli í aðdraganda kosninga láta það útúr sér, að því er virðist í fullri alvöru, að hann vilji stofna netlögreglu? Það er til orð á íslensku yfir það sem þarna er verið að nefna. Það er "ritskoðun"

Ég vissi svosem að hugsunin væri nokkuð fjarri venjulegu fólki í tíma og rúmi en er þetta ekki fulllangt gengið? Ég geri mér að vísu fulla grein fyrir því að fyrirmyndirnar eru sóttar til heimalanda ýmissa helstu spámanna Steingríms og fyrirmynda um það hvernig eigi að halda skikk á sauðsvörtum almúganum sem veður áfram í villu og svíma og má þar benda á fagurt fordæmi stjórnvalda í Alþýðulýðveldinu Kína. Þar eru öll netsamskipti síuð og gerilsneydd af öllu sem hugsanlega gæti flokkast undir "klám", ekki hvað síst á hinu pólitíska sviði, enda eru það stjórnvöld sem ákveða hvað landsmönnum sé hollt að véla um á netinu og hvað ekki; þær skilgreiningar koma frá einhverju alvísu apparati sem bannar þau orð og hugtök sem því sýnist. Þannig hafa þeir sem nota leitarvélar af tölvum með kínverskar IP-tölur ekki aðgang að ýmsu efni á alþjóðlegum leitarvélum auk þess sem allskonar köngulær og slíkur hnýsibúnaður á vegum netlögreglunnar elta uppi óæskileg orð og hugsanir í samskiptum manna.

Hér er tegill á skemmtilegheitin: http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/section?Category=VEFMIDLAR&Template=VefTV&ChannelID=10&ProgID=30148&ProgType=2001&ItemID=26830&progCItems=1 

Nú er mér fullkunnugt um að Steingrímur Jóhann Sigfússon er vænsti maður og ábyggilega vel meinandi um flesta hluti. Það virðist hins vegar sem hann sé í heldur vondum félagsskap og hafi slæma ráðgjafa.

Í þessu ágæta viðtali kemur fram að VG sé ákaflega feminískur flokkur og mætti þá ímynda sér að hann geri kröfu um að vera álitinn arftaki Kvennalistans sáluga þó svo að opinberlega hafi leifarnar af honum gengið til liðs við Samfylkinguna. Þarna væri semsagt á ferðinni Vinstri-Kvenna-Grænir. Sé svo kemu manni ekki á óvart þessi tilhneiging til stjórna skoðunum og lífi almennings og raða niður með tilskipunum og lögregluvaldi hvað pöbulnum sé hollt og ekki.

Fyrir margt löngu, meðan forseti vór var enn starfandi prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, var hann að gefnu tilefni spurður hvort á Íslandi mætti finna flokk sem gæti jafnast á við Þjóðernissósalista Þriðja ríkisins. Jú hann hélt það nú. Slíkur flokkur væri svo sannarlega til og það væri Kvennalistinn. Svarið kom nokkuð á óvart en var stutt haldgóðum rökum eins og ÓRG er von og vísa. Þarna talaði fræðimaður og lýsti óháðri úttekt. Sennilega eru völd þessara öfgakvenna að verða heldur mikil í VG enda taldi Steingímur að hans dagar sem formanns væru von bráðar taldir og einhvernveginn fannst mér brosið á honum þegar hann sagði þetta dálítið seyrið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband