Færsluflokkur: Bloggar

Fæddur fótur

Sá áðan að einstaklingar úr "Átakshópi öryrkja" eru búnir að ákveða að stofna stjórnmálaafl og bjóða fram. Þessi tímamótaárangur náðist á fundi "Baráttuhóps eldri borgara og öryrkja" http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1255900 

Húrra fyrir þeim. Sjálfur er ég öryrki en minnist þess ekki að ég hafi verið spurður hvort þetta lið mætti bjóða fram í mínu nafni.

Þegar litið er yfir fréttatilkynninguna eða það sem birtist á Mbl.is þá er ekki hægt annað en fagna því að jólasveinninn sé kominn til byggða svona líka eldsnemma þetta árið. Hitt er svo annað mál að minn sljói heili áttar sig ekki alveg á því sem kemur þarna fram. Má ekki skilja þetta sem svo að þarna sé á ferðinni klofningshópur úr "Átakshópi öryrkja"? Eru þeir að ná saman við 16. desemberhópinn hjá öldruðum? Hvaða fólk er þetta? Af hverju var þetta ákveðið á sunnudaginn síðasta en kemur ekki fram fyrr en á þriðjudag?

Aðdragandi framboðs öryrkja og eldri borgara sem virðist ná endapunkti með þessari tilkynningu minnir mig óneitanlega á ástandið yst á vinstrivængnum hérna í gamla daga þegar örflokkarnir klofnuðu hver um annan þveran vegna deilna um keisarans skegg og urðu svo litlir og sérhæfðir að þar rúmuðust varla nógu margir til að mynda stjórn í apparatinu.

Það er greinilegt á öllu að þetta væna fólk sem að framboðinu stendur vill vera svo undurgott við alla. Sérstaka athygli mína vakti lokagreinin en hún hljóðar svo:

"Flokkurinn heitir því að standa ekki að inngöngu í ESB eða upptöku Evru í stað krónu án þess að vilji þjóðarinnar til þess sé staðfestur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hið sama gildir um einkavæðingu þeirra ríkisstofnana, fyrirtækja, þjónustu og mannvirkja sem eru undirstaða að menntun, menningu, velferð, frelsi, mannúð, sjálfstæði þjóðarinnar og hvers einstaklings. Hið sama á við um meiriháttar jarðrask s.s. vegna stíflugerða og lagningar vega um viðkvæm svæði.“

Nú er það eins með skortinn á upplýsingum um nöfn þess góða fólks sem að þessu stendur að hvergi er minnst á hvað barnið á að heita en það hlýtur að teljast nokkuð gott að flokkur sem ekki er til og ekki hefur hlotið nafn (er ekki nafnið "Flokkurinn" frátekið) skuli heita því að breyta ekki stjórnarskránni án þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þá er gott að vita að hann vill ekki einkavæða frelsi manna með nokkrum hætti og ætlar að tryggja þjóðaratkvæðagreiðslu um vegarspotta og undirstöður mannúðar. Hvað er meiriháttar jarðrask? Hver er undirstaða mannúðar á Íslandi? Er það kirkjan? Eða trú almennt? Hvað skerðir sjálfstæði (og frelsi) hvers einstaklings? Eru það ekki lögin eins og þau leggja sig? Þarf ekki að byrja á að leggja allt lagasafnið og reglugerðarfarganið eins og það leggur sig undir þjóðaratkvæði og síðan öll þau lög sem hugsanlega verða sett í framtíðinni og gætu hróflað við sjálfstæði mínu eða annara einstaklinga? Verður þá ekki hent í buskann öllum lögum og reglum um umhverfismat vegna vegagerðar og hlutirnir einfaldlega ákveðnir í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Þetta er bara eitt plagg og það fyrsta. Ég get varla beðið eftir að sjá meira.


Samstaða með þjóðinni

 

Hjörtur J. Guðmundsson fjallar á bloggi sínu um  niðurstöðu skoðanakönnunar Fréttablaðsins þar sem spurt var um réttmæti þess að vísa klámhundunum frá og neita þeim um gistingu http://sveiflan.blog.is/blog/sveiflan/entry/133835/

Þar er bent á yfirlýsingar feminista um samstöðu þjóðarinnar gegn klámi. Ég held við verðum að skilgreina feminista til vinstri, einkum í ljósi bráðskemmtilegrar togstreitu sem nú stendur milli VG og Samfylkingar um hvor flokkurinn sé feminiskari.

Þessi árátta vinstrimanna að belgja sig út í nafni "þjóðarinnar" er ekkert nýtt og yfirleitt jafn lítil innistæða fyrir því.

Þeir sem eru nógu gamlir til að muna vaðalinn í gömlu Alþýðubandalagsmönnunum, bæði á þingi og í fjölmiðlum kannast við þetta. Þar göptu þeir svo sá ofaní botnlanga á þeim um að "þjóðinni" þætti þetta og "þjóðinni" þætti hitt. Einnig var vinsælt að fimbulfamba um vilja þjóðarinnar / almennings / fólksins í landinu og svo framvegis út í það óendanlega og auðvitað voru þeir að eigin áliti málpípur og forsjármenn þessa lýðs og vissu uppá hár hvað þeir voru að segja.

Það einkennilega var nú samt að þessi þjóð, almenningur í landinu hafði aldri meira álit á þessum spámönnum sínum en svo að fylgið varð sjaldan yfir styrkleikanum á bjórnum sem strákurinn drakk í Kastljósþættinum á dögunum.

Það eru aðallega tveir menn á þingi í dag sem bergmála þetta sjónarmið með svo eftirminnilegum hætti að ég heyri þá aldrei mæla án þess að sjá fyrir mér Lúðvík Jósefsson, Hjörleif Guttormsson og Svavar Gestsson svo nokkrir séu nefndir.

Þessar afturbatapíkur eru Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson. Það setur að mér heldur ónotalegan hroll þegar mér verður hugsað til þess að ef til vill muni "þjóðin" kjósa þetta lið yfir sig.

Megi allar góðar vættir forða okkur frá því.


Óperuumfjöllun í Lesbók Morgunblaðsins

Mig langaði að benda á áhugaverða umfjönnun um óperuflutning á Íslandi sem byrst hefur að undanförnu í Lesbóka Morgunblaðsins. Það er ekki oft sem hreyft er vitrænum umræðum um þetta dásamlega listform í fjölmiðlum. Semsagt eitthvað sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.

Hvað sagði ég ekki?

Í gær fjallaði ég lítillega um kosningáherslur VG hér á síðunni og leist ekki á blikuna. Eini ljósi punkturinn væri hins vegar að sennilega mætti treysta Steingrími til að tala þetta fylgi niður í eðlilega stærð áður en kjördagur rynni upp.

"Sjaldan bregður mær vana sínum, meig hún undir enn í nótt" segir hið fornkveðna og mikið þótti mér vænt um hvað hann blessaður brást vel við áheitinu í Silfir Egils í gær. Er það ekki makalaust að maðurinn skuli í aðdraganda kosninga láta það útúr sér, að því er virðist í fullri alvöru, að hann vilji stofna netlögreglu? Það er til orð á íslensku yfir það sem þarna er verið að nefna. Það er "ritskoðun"

Ég vissi svosem að hugsunin væri nokkuð fjarri venjulegu fólki í tíma og rúmi en er þetta ekki fulllangt gengið? Ég geri mér að vísu fulla grein fyrir því að fyrirmyndirnar eru sóttar til heimalanda ýmissa helstu spámanna Steingríms og fyrirmynda um það hvernig eigi að halda skikk á sauðsvörtum almúganum sem veður áfram í villu og svíma og má þar benda á fagurt fordæmi stjórnvalda í Alþýðulýðveldinu Kína. Þar eru öll netsamskipti síuð og gerilsneydd af öllu sem hugsanlega gæti flokkast undir "klám", ekki hvað síst á hinu pólitíska sviði, enda eru það stjórnvöld sem ákveða hvað landsmönnum sé hollt að véla um á netinu og hvað ekki; þær skilgreiningar koma frá einhverju alvísu apparati sem bannar þau orð og hugtök sem því sýnist. Þannig hafa þeir sem nota leitarvélar af tölvum með kínverskar IP-tölur ekki aðgang að ýmsu efni á alþjóðlegum leitarvélum auk þess sem allskonar köngulær og slíkur hnýsibúnaður á vegum netlögreglunnar elta uppi óæskileg orð og hugsanir í samskiptum manna.

Hér er tegill á skemmtilegheitin: http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/section?Category=VEFMIDLAR&Template=VefTV&ChannelID=10&ProgID=30148&ProgType=2001&ItemID=26830&progCItems=1 

Nú er mér fullkunnugt um að Steingrímur Jóhann Sigfússon er vænsti maður og ábyggilega vel meinandi um flesta hluti. Það virðist hins vegar sem hann sé í heldur vondum félagsskap og hafi slæma ráðgjafa.

Í þessu ágæta viðtali kemur fram að VG sé ákaflega feminískur flokkur og mætti þá ímynda sér að hann geri kröfu um að vera álitinn arftaki Kvennalistans sáluga þó svo að opinberlega hafi leifarnar af honum gengið til liðs við Samfylkinguna. Þarna væri semsagt á ferðinni Vinstri-Kvenna-Grænir. Sé svo kemu manni ekki á óvart þessi tilhneiging til stjórna skoðunum og lífi almennings og raða niður með tilskipunum og lögregluvaldi hvað pöbulnum sé hollt og ekki.

Fyrir margt löngu, meðan forseti vór var enn starfandi prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, var hann að gefnu tilefni spurður hvort á Íslandi mætti finna flokk sem gæti jafnast á við Þjóðernissósalista Þriðja ríkisins. Jú hann hélt það nú. Slíkur flokkur væri svo sannarlega til og það væri Kvennalistinn. Svarið kom nokkuð á óvart en var stutt haldgóðum rökum eins og ÓRG er von og vísa. Þarna talaði fræðimaður og lýsti óháðri úttekt. Sennilega eru völd þessara öfgakvenna að verða heldur mikil í VG enda taldi Steingímur að hans dagar sem formanns væru von bráðar taldir og einhvernveginn fannst mér brosið á honum þegar hann sagði þetta dálítið seyrið.


Ég verð að segja það

Frétt Blaðsins á dögunum þar sem blaðamaður játar að hafa skáldað upp viðtöl og komment í nafni Steingríms Hermannssonar er alveg óborganleg. Þarna er sennilega komin skýringin á að minnstakosti hluta þess minnisleysis sem ævinlega hrjáði Denna.

Var von að karl greyið ætti bágt með að muna það sem hann sagði aldrei. Hitt er svo annað mál að ef ég man rétt þá kom það í ljós þegar Dagur B. Eggertsson var að skrifa þriggja binda ævisögu Steingríms að í kjallaranum í Arnarnesinu var stærðar skjalageymsla þar sem Steingrímur varðveitti alla sína pappíra frá löngum ferli og allt í snyrtilega skipulögðum möppum og öskjum. Sumir sögðu að þarna hefði meira segja mátt fynna tossamiðana sem frúin sendi hann með í búðina þegar hana vantaði grænar baunir og þvíumlíkt.

Dagur var í þessu viðtali ákaflega ánægður með það hvað hann gat gengið að ýtarlegum heimildum um viðfangið en ég minnist þess ekki að hann talaði um blaðaúrklippur sérstaklega. Það væri vissulega forvitnilegt að vita hvort Dagur vitnar einhverstaðar í bókunum í þessi tilbúnu viðtöl. Ef til vill væri blaðamaðurinn skáldmælti tilbúinn að upplýsa það?


Aftur til fortíðar

Það væri stórkostleg skemmtun að lesa kosningaáherslur VG http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1255502 ef ekki væri þarna um að ræða flokk sem er að fá tæplega 24% fylgi í skoðanakönnunum um þessar mundir.

Það eina sem gleður mann er að líklega endurtaka þeir leikinn frá síðustu kosningum og tala frá sér fylgið þegar nær dregur 12. maí.

Forsjárhyggjan vellur út um öll göt á þessum texta. Þarna er boðuð ríkismenning, ríkismenntun, ríkiseftirlit með öllum sköpuðum hlutum því þessu fólki, þessari fámennu klíku er svo gjörsamlega ljóst að almenningi er ekki treystandi fyrir lífi sínu og hugsun.

Eru allir búnir að gleyma þegar þingmaður flokksins kom fram með þá hugmynd í fúlustu alvöru að koma á fót ríkisdagblaði. Ég tel vert að hafa það í huga þegar þessir sömu aðilar tala um að afhenda "þjóðinni" Ríkisútvarpið á ný. Það setur að mér hroll.

Einhverra orsaka vegna verður mér hugsað til Þýskalands á fjórða áratug síðustu aldar.


Minn er víst stærri en þinn ...

Björn Ingi gerir umfjöllun Ríkisútvarpsins um landsfund VG að umræðuefni á bloggi sínu á föstudag http://bingi.blog.is/blog/bingi/entry/131239/.

Þar býsnast bingi yfir andakt þeirri sem hafi ríkt hjá þingfréttamanni RÚV, enda hafi sá hinn sami greinilega hrifist með í stemmingunni og lái honum hver sem vill. Það getur þurft sterk bein til að standast seiðinn sem er galaður á svona heittrúarsamkomum og var enda ekki óalgengt hér áður fyrr að þeir sem slæddust í gamladaga inn á samkomu hjá Hjálpræðishernum í þeim tilgangi einum að hleypa henni upp  kæmu þaðan út frelsaðir menn og búnir að afhenda Jesu Kristi hjarta sitt til frambúðar.

Í framhaldi fer bingi að leggja út af fjölda fundarmanna sem honum skilst að hafi verið um 500. Þetta sé hinsvegar verulega aum tala; oft hafi fulltrúfar á landsfundum Framsóknarflokksins verið ríflega tvöfalt það margir auk þess sem fleiri hafi gengið í Framsóknarflokkinn en VG á liðnu ári. Fulltrúar á landsfundi Frjálslyndra hafi verið á annað þúsund (þar miðar hann líklega við tölu greiddra atkvæða í kosningum á fundinum), fulltrúar á landsfundum Samfylkingarinar og Sjálfstæðisflokksins hafi einnig verið minnsta kosti tvöfalt fleiri og ekki þótt sérstakt fjölmiðla efni.

Þá fer bingi að velta fyrir sér hve fjölmennur flokkur VG sé. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að þeir séu með nýorðnum viðbótum, 3.000. Þetta finnst binga lélegt; að svona smáflokkur skuli hafa annað eins fylgi.

En skoðum aðeins hvernig þetta virkar í raunveruleikanum í hinum stóra heimi. Heldur bingi í raun og veru að það sé eitthvert samhengi milli fjölda í "flokknum" og áhrifum, völdum eða "fylgi".

Skoðum dæmi. Kommúnistaflokkur Kína er að vísu fjölmennasta stjórnmálahreifing heims með 70.000.000 félaga (jú það er rétt, sjötíu milljónir). Það er samt innan við 5% af þjóðinni, Kommúnistaflokkur Vietnam telur 3.1% íbúa, Kommúnistflokkur Sovétríkjanna sálugu komst upp í 10% fullorðinna landsmann skömmu fyrir andlátið en taldi einungis um 200.000 þegar hann komst til valda, Nasistar í Þýskalandi voru tvær milljónir þegar þeir komust til valda en fengu samt rúmlega 17 milljónir atkvæða, hið sama var uppi á teningnum á Ítalíu 1922 þegar Fasistar Mussolinis komust þar til valda. 

 Mér sýnist því sagan færa okkur heim sanninn um að öfgaflokkar þurfa ekki að vera íkja-fjölmennir til að ná til sín fylgi eða völdum; þetta er spurning um markaðssetningu og að vera réttur aðili á réttum stað á réttum tíma.


Orka til útflutnings

Oft er erfitt að átta sig á hvað þetta góða fólk sem ann landinu heitast og náttúrunni er að fara. Á dögunum, man ekki hvort það var um helgina síðustu eða á mánudag-þriðjudag, fór náttúruverndardeild Ríkisútvarpsins mikinn og kynnti til sögunnar íslending sem hafði búið í Skotlandi (eða bjó þar enn, það var erfitt að átta sig á því) óg var búinn að sjá ljósið.

Sko; það var nefnilega hægt að flytja út íslenskt rafmagn um sæstreng til Skotlands og selja það þar á 4x hærra verði heldur en stóriðjan á Reyðarfirði væri tilbúin að borga fyrir það (hvaðan sem þessi góði maður hafði upplýsingar um það verð). Þessi möguleiki væri þar að auki rétt handan við hornið því eins og málin stæðu væru kolaorkuver sem annaði einu fjórða af orkuþörf Skota á síðasta séns og yrði sennilega kippt út úr kerfinu um 2020.

BINGO. Hættum að gefa útlendingum útlendingum orkuna og gefum Skotum hana frekar. Hvað þýðir þetta í raun? Skotar eru samkvæmt þessum heimildarmanni sjö milljónir. Ef við látum okkur lítið og hugsum sem svo að við viljum "bara" hlaupa í skarðið fyrir áður nefnt kolaver hvað er þá verið að tala um í orkuþörf? Mér er ekki kunnugt um hvað Skotar nota mikið af rafmagni en þeir eru með talsverða gasnotkun eins og víða tíðkast í Evrópu en það er auðvitað mengandi orkugjafi svo við skulum henda því út. Skotar kinda húsin sín sjálfsagt með svipuðum hætti og aðrir á Bretlandseyjum svo við skulum láta þann skort á kindingu mæta þeirri hitaveitunotkun sem er á Íslandi svo þeir sem kinda húsin sín með rafmagni hér á landi skekkja ekki myndina umtalsvert.

1/4 af 7 milljónum er 1.750.000 á meðan Íslendingar eru ca. 300.000. Þessi hluti Skota er því 5.83 sinnum fleiri en Íslendingar. Samkvæmt tölum frá Landsvirkjun seldi fyrirtækið 2.454 GWst (gígawattstundir) á almennum markaði árið 2005. Látum nú þessa tölu gilda um væntanlega notkun fjórðungs skosku þjóðarinnar árið 2020 og þá er útkoman 14.307 GWst. Það er nánast uppá GSst. tvöföld framleiðsla Landsvirkjunar árið 2005. Kárahnjúkavirkjun mun afkasta 4.600 GWst. þegar hún verður komin í fullan rekstur og Landsvirkjun framleiddi 7.143 GWst. 2005 svo enn vantar 2.564 GWst. upp á að við önnum þessum tittlingaskít handa Skotunum þó svo við hættum að nota rafmagn sjálf en dælum þessu öllu yfir hafið. Eitthvað mætti troða í þetta gat með því að hirða allt rafmagn sem Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja framleiða en það er nokkuð langt frá því að vera þessa hálfa Kárahnjúkavirkjun sem vantar.

Hvar á að fá þessa orku? Eigum við að byggja kjarnorkuver eða hvað? Síðan má horfa á það hvaða áhrif þessi voðalegu álver hafa á hagkerfið okkar. Hvað um þann fjölda starfa sem verður til í kring um þau, bæði beint og óbeint? Hver er virðisauki þeirrar orku sem fer til álframleiðslu í landinu?

Hér er verið að hreyfa hugmyndum um ómengaðan hráenisútflutning; óunnin vara, raforkan skal flutt úr landi og skapa verðmæti í öðrum löndum á meðan landsmenn utan 101 svæðisins skulu týna fjallagrös og vera til sýnis á sauðskinnskónum í sínu náttúrulega umhverfi fyrir ferðamenn 3 til 4 mánuði á ári.

Nei takk!


Loksins loksins!

Loksins er ég búinn að taka í hnakkadrambið á sjálfum mér og starta þessu bloggi. Vona að ég verði sæmilega duglegur því af nógu er að taka.

Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband