Færsluflokkur: Bloggar

Sænskir kratar á brott með fylgi Samfylkingarinnar?

mona_sahlinBjörgvin G. Sigurðsson vitnar á síðu sinni um að heimsókn formanna danskra og sænskra krata hafi verið hvílík vítamínsprauta fyrir landsfund Samfylkingarinnar.

Og ekki nóg með það heldur virðist honum þetta tækifæri Monu Sahlin til að baða sig í ljómanum af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur hafi dugað henni til umtalsverðrar fylgisaukningar við heimkomuna. (hér er tengill á færsluna)

Hún lifir eftir landsfund heimsókn þeirra Sahlin og Helle til landsins. Ekki efast ég um að heimsóknin gerði gagn.

Hleypti krafti í baráttu jafnaðarmanna og gerði glæsilegan landsfund ennþá flottari og betri.

En ekki þá síður fyrir Monu Sahlin formann sænskra jafnaðarmanna. Eftir Íslandsferðina mælist fylgi Monu og sænskra jafnaðarmanna nú um 44%.

Það mesta í 12 ár og meira en fylgi allra hægri flokkanna sem stjórnina sænsku mynda samanlagt.

Góð reisa það hjá Mohnu. En að öllu gamni slepptu fer þetta vel af stað hjá henni.

Ríkisstjórn hægri manna í Svíþjóð nær ekki vopnum sínum og fara illa með fjöreggið sem er sænska velferðin. Líklega eitt af merkustu afrekum mannsins.

Þessi texti er alveg stórmerkilegur og minnir um margt á pólitískann vitnisburð sannfærðra kommúnista eftir heimsókn til Sovétríkjanna fyrir seinna stríð en eins og alkunna er sáu þeir hvergi blett né hrukkur á sæluríkinu sem "Kremlarbóndinn" geðþekki stjórnaði með mildri föðurhendi. 

Því miður virðist vera svo að frú Sahlin hafi farið með eitthvað af væntanlegri fylgisaukningu með sér heim; í það minnsta hefur hún látið á sér standa.

Reyndar nefnir Björgvin ekki einu orði að SD tapaði síðustu kosningum mjög vandlega fyrir borgaraflokkunum og vóg þar sennilega þyngst feluleikur SD í atvinnumálum.

Sæluríkið Svíþjóð þar sem "eitt af merkustu afrekum mannsins" hefur opinberast Björgvini er nefnilega hrjáð af atvinnuleysi sem er í raun á milli 13% og 15% þó það hafi verið falið með ýmsum hætti og eins og í flestöllum ES ríkjum er það langmest hjá ungu fólki, milli 20% og 25%. Var einhver að tala um "Unga Ísland"?


Framtíðarlandið?

xb_samanEgill Helgason var að gefa auglýsingum stjórnmálaflokkanna einnkunn á blogginu sínu. Um er að ræða nokkrar þær auglýsingar sem fá falleinkun hjá honum.

Hér er textinn:

 

Nokkrar kosningaauglýsingar vekja athygli fyrir hvað þær eru vondar. Þar skal fyrsta telja vefauglýsingu Samfylkingarinnar á Suðurlandi þar sem frambjóðarnir spila billjarð og Lúðvík Bergvinsson kallar Róbert Marshall "sprækan strák". Í flokki sem hefur rauða kúlu sem tákn er sorglegt að engum frambjóðendanna skuli takast að setja kúluna niður.

Svo er það auglýsing Framsóknarflokksins þar sem Samúel Örn og Siv eru að kyssast. Hún er hræðileg. Eða eins og einhver sagði: "Áin þrjú hafa hlotið nýja merkingu….Á, Ái, Ááááíii!!"

Þessa auglýsingu má sjá hér að ofan.

Einna verst er þó auglýsingin með Katrínu Jakobsdóttur sem hangir víða í bænum. Hún er segja eitthvað eins og Stöðug framfarasókn eða Til móts við framtíðina, einhvern slíkan frasa sem ómögulegt er að muna, en ljósmyndin af henni er tekin fyrir framan einstaklega ljótar blokkir í Austur-Þýskum stíl - minnir helst á það sem var kallað plattenbau í því landi.

meinlaetalifÞví miður er Egill ekki með tengingu á þetta listaverk sem er gert í stíl 66 gráður norður auglýsinganna þar sem fólk stendur á berangri í heldur nöturlegu umhverfi og veðri og reynir að líta út eins að því sé ekki kalt af því það er í fötum frá fyrirtækinu.

Mér hefur ekki tekist að finna frumútgáfuna en einhverjir "strákar" hafa fært slaðorðið til réttrar áttar á þeirri sem hér er. Ef ég man rétt þá hefur einnig birst svipuð auglýsing með Ögmundi þar sem hann stendur við einhverjar húsarústir, sem sjálfsagt á að tákna höfuðstöðvar einhvers bankans sem honum hefur tekist að hrekja úr landi. Gaman væri að hafa upp á henni.


Stendur við fullyrðingar! Og hvað?

SGSÞað kom fram í kvöldfréttum að Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, hefði fullyrt að Landsvirkjun yrði seld eftir kosningar ef núverandi stjórn héldi áfram. (hér er tengill á fréttina)

Þetta er náttúrulega djúphugsað hjá þessum snillingi sem ég þekki svosem ekki neitt en hann er æði langt frá því að hafa fundiði svona nokkuð upp. Það var fyrir margt löngu Richard Nixon fullkomnaði svona vinnubrögð undir vinnuheitinu "let them deni" og fólst í því að kasta fram einhverju sem hugsanlega gæti komið andstæðingnum illa og láta hann bera af sér. Engu máli skipti hversu ruglað, rætið eða ósanngjarnt atferli var borið upp á viðkomandi því sögð orð urðu ekki aftur tekin og maskína farin að snúast. Sá sem kastar þessu fram dregur sig í hlé og lætur hina ásökuðu um að tala.

Þessari aðferð var síðast beitt í íslenskum stjórnmálum með snilldarárangri þegar Steingrímur Hermannsson gerði áhuga annarra flokka en Framsóknar á að ganga í Evrópusambandið að kosningamáli 1991. Hann henti þessu framm korteri fyrir kosningar og slagorði Framsóknar varð "X-B, ekki EB". Þetta athæfi sendi Alþýðuflokkinn beint í fangið á Sjálfstæðisflokkinn eftir kosningar þó svo að Jón Baldvin kjósi nú að gleyma því öllu.

Nú er það spurningin; hvernig verður unnið úr þessu máli? Mér finnst stjórnarflokarnir eigi að láta þetta eins og vind um eyru þjóta, láta kallinn halda áfram með málið og blaðra sig út í fenið ef hann vill en ég er tilbúinn að veðja nokkrum krónum að hann mun ekki hreyfa þessu frekar enda enginn grunnur fyrir hann að standa á. Í fréttinni kemur eftirfarandi fram:

 Skúli sagði í samtali við fréttastofu Útvarps að hann stæði við fullyrðingar sínar í ræðunni.

Og hvað svo? Eins og ég sagði áðan þekki ég manninn ekki neitt en samkvæmt röksemdafærslu hans í viðtalinu get ég fullyrt að hann sé að nota stöðu sína hjá Starfsgreinasambandinu til að koma höggi á pólitíska andstæðinga án þess að geta heimilda, hef ekki hugmynd um hvað maðurinn kýs þó nokkuð sé greinilegt að hann kemur ekki úr hægri hluta verkalýðsarms Framsóknarflokksins. Þessi fullyrðing mín öðlast ekki aukið vægi við það að ég segist standa við hana meðan ég færi engin haldbær rök eða sannanir fyrir máli mínu. Hún verður eftir sem áður einungis skoðun.

Svona eiga menn ekki að vinna og allra síst þeir sem koma fram í nafni fjöldahreyfingar launafólks með skylduaðild.


Steingrímur J. og hermangið

S_J_SAð undanförnu hafa verið að birtast á blogginu þarfar upprifjanir á forpokuðum afturhaldsviðbrögðum gömlu allaballana og erfðaprinsins þeirra Steingríms Jóhanns Sigfússonar við ýmsum framfaramálum á undanförnum áratugum. Þar held ég að umræðan um litasjónvarpið hafi verið toppurinn.

Í fyrradag, 24. var á bloggsíðu Eyþórs Arnalds tilvitnun í tillöguflutning SJS gegn flugstöðinni í Keflavík og öllu henni viðkomandi. Við það tækifæri fann hann þessu húsi allt til foráttu og lýsti í löngu máli hvursu arfavitlaus þessi framkvæmd væri en útyfir tekur þó hvernig skuli fjármagna hana, ráðamenn hafi farið hverja betliferðina annari aumlegri vestur um haf til að sníkja pening. Ræðan var í Castróstíl og því nenni ég ekki að endurbirta hana en hér er tengill á færsluna hjá EA http://ea.blog.is/blog/ea/entry/187763/ Eins og venjulega nokkuð lipur texti hjá Steingrími en sannar það sem menn veltu fyrir sér hérna um árið þegar spurt var: "Hvernig veistu að vinstrimenn eru að bulla? Þeir opna munninn og tala."

En að öðru. Í athugasemdum við þessa færslu var verið að auglýsa eftir einhverju sem SJS hefði gert eða komið að eða verið samþykkur, sem til framfara horfði á sínum langa pólitíska ferli. Fljótt á litið er það ekki margt en þó er hann í þeirri afar slæmu stöðu að vilja ekki hampa því sem ætti að halda nafni hans á lofti um ókomna tíð.

Hann var nefnilega ráðherra samgöngumála í tveimur ríkisstjórnum Steingríms Hermannssonar á árunum 1988 til 1991. Sem slíkur var hann ráðherra fjarskiptamála og sá um að koma af stað lagningu ljósleiðara hringinn kringum landið. Stórkostleg framkvæmd og afar nútímaleg en hann minntist ekki á þetta einu orði í kosningabaráttunni '91 og hefði þó að sönnu mátt nota þetta til að slá sig til riddara.

En nú kunna menn að spyrja afhverju hann þagði þunnu hljóði um þetta brautryðjenda starf og framfarskref; það stærsta í hans ráðherratíð? (fyrir utan að malbika veginn frá Þórshöfn í Gunnarsstaði). Svarið er einfalt. Verkið var nefnilega unnið í þágu Bandaríkjamanna sem þurftu á þessum ljósleiðara að halda til að koma merkjum til Keflavíkur frá nýrri syrpu af radarstöðvum sem þá var búið að reisa vítt um land. Verkið var semsagt kostað með fyrirfram greiddri leigu og unnið af miklum hraða. Nato og bandaríski herinn borguðu.

Auðvitað hefði þetta aldrei komið til ef Steingrímur og skoðanabræður hans hefðu getað komið í veg fyrir byggingu þessarra stöðva á sínum tíma. Þá er það nokkuð ljóst að ef SJS hefði ráðið sjálfur hefði þessi ljósleiðari aldrei verið lagður en hann komst að sjálfsögðu ekki upp með annað en segja já og amen og standa að þessari aðgerð sem er eins sólarklárt dæmi um "hermang" eins og hægt er að hugsa sér.

En um þetta ríkir grafarþögn.

Vildi bara koma þessu á framfæri svo menn héldu ekki að kallinn væri gjörsamlega ónýtur.


Forsætisráðherraefni á síðasta séns?

ISGVar að horfa á formannskynningu Stöðvar 2 í kvöld en þar var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar í nærmynd. Ég verð að segja að mér fannst þeir ganga heldur nærri forsætisráðherraefninu, maður sá fullgreinilega á henni "best fyrir" dagsetninguna; nefnilega 12. maí.

Eins og að undaförnu gróf hún sína gröf sjálf í þessum þætti, reyndar með ljúflegri aðstoð svilans fiskfróða sem sendi henni hverja skítapilluna á fætur annari og toppaði með því að lauma því útúr sér að nú væri vaxandi útlit á að hún yrði forsætisráðherra og glotti kalt allan hringinn.

Mér fannst hún taka dýpstu skóflustungurnar þegar hún lýsti því yfir að hún hefði verið komin á fremsta hlunn með að hætta í pólitík þegar hún komst ekki upp með að vera á lista Samfylkingarinnar í landsmálunum og jafnframt borgarstjóri í Reykjavík og má með sanni segja að þar hefndu VG og framsókn í héraði þess sem hallaði á Alþingi. Hún hafði nefnilega ætlað sér að hafa borgarstjórann í bakhöndinni ef svo færi sem varð að hún kæmist ekki á þing.

Þarna urðu vatnaskil í hennar pólitíska ferli og hún mun aldrei fyrirgefa samstarfsflokkunum hvernig þeir settu henni stólin fyrir dyrnar. Hingað til hafði þessi stjórnmálamaður ekki þurft að hafa fyrir neinu; hún benti og hún fékk enda sagði hún í sjónvarpinu að hún væri hvorki tilbúin að hætta að vera borgarstjóri né hætta við framboðið og varð svo að éta það allt ofaní sig og snauta hnípin á dyr úr ráðhúsinu.

Össur komst svo smekklega að orði í þættinum að svilkonan væri þannig skapi farin og hefði þannig reynslu að hún kynni svona heldur verr við sig í minnihluta. Um skapið veit ég ekki en reynslan úr borginni var á einn veg. ISG leiddi aldrei listann heldur var í 8. sæti. Hvers vegna var það? Jú þetta þótti hið mesta snjallræði; setja þennan frábæra leiðtoga og sameiningartákn í baráttusætið. En við mér blasti alla tíð hin hliðin á peningnum, semsé sú að hún hafði ekki minnsta áhuga á að vera í minnihluta í borgarstjórn. Ef svo hefði farið gat hún alltaf sagt "Far vel Hosa" svo vitnað sé í Kristrúnu í Hamravík.

Mér fannst þessi þáttur marka tímamót. Við áhorfendum blasti uppgefin, þreytt og ráðvillt manneskja sem hefur gert sér grein fyrir hroðalegri stöðu flokksins sem hún leiðir og sinni eigin stöðu sem fallkandidats brostinna vona án þess að skilja neitt í því hvers vegna svona er komið.


Jón Baldvin á fullu í bullinu

Jón BaldvinÞví virðast engin takmörk hvað Jón gamli Baldvin fær að bulla í silfri Egils. Hann virðist vera orðinn einhver sérstakur álitsgjafi hjá sjálfum erkiálitsgjafanum Agli og fær þar að geisa um víðan völl og drulla yfir allt og alla án þess hann sé spurður útí vitleysuna.

Í dag gekk hann alveg framaf mér þegar hann eignaði vinstrivillingastjórn Steingríms Hermannssonar heiðurinn af því að EES komst í gegn. Maðurinn hlýtur að vera farinn að þjást af verulegum elliglöpum.

Er hann búinn að gleyma meginástæðu þess að hann myndaði Viðeyjarstjórnina með Davíð? Hann einfaldlega vissi að það var ekki hægt að treysta samstarfsflokkunum til að klára málið. Ég skal vera fyrstur manna til að hrósa Jóni Baldvin fyrir að koma því máli í höfn en að hann skuli voga sér að halda því fram að kommarnir og vinstri frammararnir í þessari endemis ríkistjórn hefðu  staðið með honum við að klára málið eftir kosningar það er hrein og klár lygi og hann veit það.

Það er lágmarkskrafa að hann biðji hlutaðeigendur afsökunnar og þvoi sér um munninn með sápu.

Annars er frekar farið að slá útí fyrir Agli Helga þegar hann er að leggja útaf stöðu mála, nú í aðdraganda kosninga. Hann skirfaði innfjálgan pistil á dögunum þar sem hann fjallaði um "rógsherferð" gegn Ingibjörgu Sólrúnu. Hverslags bull er þetta. Draupð úr penna hans eitt einasta orð um rógsherferðir eða einelti þegar þetta vinstralið stóð á gólinu sólarhringum saman útí Davíð Oddson? Ekki minnist ég þess enda engin að ætlast til þess og sá góði maður gat svarað fyrir sig þó hann reyndar næði þessum froðusnökkum oftar en ekki á sporbraut með því að svara þeim alls ekki.

Svo var það um dagin þegar Egill var að leggja út af stjórnarmynstrum eftir kosningar og nefndi að framsókn gæti sem best orðið þriðja hjól undir vinstri vagninum, þeir kynnu þetta vel og sprengdu aldrei stjórnarsamstarf. Er Egill búinn að gleyma því þegar þeir fóstbræður Steingrímur sem þá var formaður framsóknar og Jón Baldvin sem þá var formaður Alþýðuflokksins slátruðu ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar í beinni útsendingu á Stöð Tvö um miðjan september 1988?

Jón Baldvin Hannibalsson sýndi þá sitt rétta eðli og átti ekki langt að sækja það. Faðir hans blessaður var merkis maður og harður baráttumaður fyrir sitt fólk en hann var haldinn nokkuð sterkri pólitískri sjálfseyðingarhvöt og hafði sérstakt lag á að taka aðra með sér í fallinu en svo lauk hans pólitíska ferli og hann fór á sínar heimaslóðir og settist á friðarstól þar. Bjarni Guðnason sagði eitthvað á þá leið að það væri fínt að kallinn væri að hætta og fara vestur í Selárdal og þar gæti hann svo þjónað lund sinni við að kljúfa rekavið en ekki flokka. Ég held að Jón Baldvin ætti að hafa vit á að setjast á sinn eldhúskoll sem hvern annan friðarstól í Mosfellsbænum og hætta þessu þrugli. Hann verður að átta sig á því að hann er ekki lengur í pólitík. Hvað skyldur vinstrivillingarnir segja ef Davíð hagaði sér svona?

 


Lausnin fundin?

Loksins er útlit fyrir að leitinni miklu að lagaskilgreiningu þess hvað kallist klám sé lokið.  Á bloggi sínu dregur Halldór Reynir Halldórsson, laganemi og formaður Orators, félags laganema http://halldor.blog.is/blog/halldor/entry/139469/ fram hæstaréttardóm frá árinu 2000 http://www.haestirettur.is/domar?nr=1102 þar sem þessi sannindi eru gerð lýðum ljós:

Af hálfu sérfræðinganefndar Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna var í mars 1986 gerður greinarmunur á hugtökunum klámi (pornografia) og kynþokkalist (erotika), þannig, að klám var skilgreint sem ögrandi framsetning á kynlífi í auðgunartilgangi, án ástar, blíðu eða ábyrgðar, en kynþokkalist sem bókmenntaleg eða listræn tjáning ástar.

Þetta finnst mér áríðandi að komi fram, sérstaklega í ljósi athugasemda minna hér við skilgreiningarskort Sóleyjar Tómasdóttur á téðu hugtaki. Nú getur hún semsagt mætt hjá Agli Helga eða hverjum sem er og slegið um sig með þessari skilgreiningu sem hefur hlotið vottun hjá Hæstarétti og á uppruna sinn hjá móðurstofnun UNIFEM, Sameinuðu þjóðunum auk þess sem hún flísfellur að slagorði sem VG hafði uppi á landsfundi um að frelsa ástina (var ekki einhverntíma talað um frjálsar ástir?).

Ætli það verði svo ekki í verkahring siðferðislögreglu VG að skilgreina hvenær fólk er að gera do án þess að uppfylla skilyrðin í þessari klásúlu? Smeikur er ég um að okkur dauðlegum, mörgum hverjum, gæti förlast að halda  listræna bókmenntasvipnum alla leið út í gegn. Að minnsta kosti stundum.

Alveg er ég handviss um að Halldór þessi á bjarta framtíð fyrir höndum sem lögfræðingur að námi loknu.


E-bay í andlitslyftingu

Tilkynnt var í dag að grundvallarbreytingar á notendaviðmóti uppboðsvefsins e-bay stæðu fyrir dyrum. Hér er slóð á viðtal við teymisstjóra hönnunarliðsins og sýnishorn af því hvernig endanleg afurð gæti litið út í fyllingu tímans. http://blogs.zdnet.com/Berlind/index.php?blogthis=1&p=367

Þarna verður um að ræða viðmót sem keyrir Flash á Appolo-grunni frá Adobe (semsagt hrein Adobe afurð eftir að Adobe keypti Macromedia sem átti Flash). Meðal helstu kosta slíkrar lausnar er að flest samskiptavandamál við vafra verða úr sögunni og einnig ætti stýrikerfi notandans að hætta að skipta máli.

Þetta eru sannkölluð gleðitíðindi fyrir hina fjölmörgu notendur e-bay um allan heim.


Það kostar að bjarga heiminum

Sóley Tómasdóttir heldur úti bloggi undir hinu hógværa nafni "Sóley bjargar heiminum!" Þar ræðir hún málefni dagsins út frá sjónarhorni róttæks feminisma. Allt gott og blessað enda skulu í það minnsta 100 blóm spretta í netheimum svo vitnað sé í áttina að Maó.  Þarna fór hún mikinn í tengslum við klámráðstefnuna góðu sem bændur forðuðu okkur frá og var fyrir vikið fengin í Silfur Egils til að ræða málin sem eðlilegt og sjálfsagt er. Þáttinn má skoða á slóðinni:  http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/section?Category=VEFMIDLAR&Template=VefTV&ChannelID=10&ProgID=30358&ProgType=2001&progCItems=1

Í ljósi þessarar frammistöðu Sóleyjar er verulega merkilegt að lesa pistil hennar á áðurnefndri bloggsíðu þar sem hún ber sig hörmulega undan vonsku heimsins (lesist karla).

http://soley.blog.is/blog/soley/entry/137893/

Læt pistilinn fylgja til að spara mönnum (æ þarna fór ég illa að ráði mínu) ... afsakið lesendum sporin.

Egill Helgason bað mig um að koma í Silfrið hans fyrr í vikunni. Öðruvísi mér áður brá. Ég þáði boðið og tók þátt í umræðunum í dag.

Ræddum um klám. Það var hrikalega erfitt, sérstaklega þar sem hin órjúfanlegu tengsl milli ofbeldis, kláms og vændis virðast vera ofar skilningi fólks. Sú þekking sem skapast hefur á margra ára ferli Stígamóta sem og innan kynjafræðinnar er að engu höfð, heldur leyfir fólk sér að fullyrða út frá eigin brjóstviti um alls kyns hluti sem eiga sér engar stoðir í raunveruleikanum.

Verst af öllu finnst mér þegar andmælendur mínir ætlast til þess að ég skilgreini hvað klám sé. Að ég eigi að bera ábyrgð á lagasetningum stjórnvalda og segja til um hvað sé refsivert og hvað ekki. Ég tek ekki þátt í slíku. Raunar held ég að 210. grein Almennra hegningarlaga eigi fáa sína líka, þar er tekið fram að framleiðsla, innflutningur og dreifing kláms sé refsiverð, en hvergi skilgreint hvað klám sé í raun og veru.

Það ætti því að vera forgangsatriði hjá löggjafanum að skilgreina klám. Að þeirri skilgreiningarvinnu þurfa að koma lögfræðingar, félagsfræðingar, félagsráðgjafar og kynjafræðingar auk hagsmunasamtaka á borð við Stígamót.

Er annars komin með ógeð á umræðunni um forræðishyggju og Stalínisma í tengslum við það eitt að Vinstri græn vilja útrýma kynbundnu ofbeldi. Ítreka undrun mína á því að fólk sé tilbúið að láta leita á sér vegna mögulegs spægipylsuinnflutnings en verji "frelsið" til að neyta kláms.

Setningin sem ég undirstrikaði vakti alveg sérstaka athygli mína því annarstaðar á vefsíðu Sóleyjar stendur svo sannarlega ekki á skilgreiningum hugtaka. Má sem dæmi vitna í grein sem heitir "Femínismi 233 - róttækur femínismi" http://soley.blog.is/blog/soley/entry/124288/ en þar segir meðal annars:

Í upphafi er rétt - svona til að forðast misskilning - að skilgreina róttækni. Róttækur er skv. Orðabók Menningarsjóðs einhver sem vill breyta einhverju frá rótum.

Semsagt ekkert mál, bara að fletta upp í þeirri mætu bók Orðabók Menningarsjóðs og leita að viðkomandi orði og þar með er það komið. Er kannski orðið "klám" ekki að finna í eintaki Sóleyjar af áðurnefndri bók? Eða reif hún hana úr henni samkvæmt þeirri kenningu Gamla testamentisins að  auga sem hneykslar skuli stungið út?

Mig langar til að rétta Sóleyju hjálparhönd í þessum aðventuraunum og benda henni á skilgreiningu áðurnefndrar orðabókar á orðinu "klám", en hana er að finna á bls. 784 í fyrra byndi verksins; útgáfunni frá 2002.

Klám -s HK 1 grófgert, illa unnið verk 2 gróf orð, klúryrði (einkum um kynferðismál eða kynfæri) málfar, mynd eða annað sem beinir athyglinni að kynlífi eða kynfærum án nauðsynjar í listrænu samhengi, fræðslu e. þ. h. klámmynd / klámrit / klámsaga / klámsýning / klámvísa / dýraklám klámefni sem byggist á kynlífi með þátttöku dýra / barnaklám

Svo mörg eru þau orð en vona að mér sé fyrirgefið að hafa þurft að sleppa rittáknum sem ég nennti ekki að möndla við að sækja.

Þarna kemur fram það sem oft hefur orðið þeim fótakefli sem hafa viljað láta refsivöndin ríða um bök og lendar klámhunda allra tíma; semsé þessi andstyggðar krafa um sýnt sé framá að það sem gengur framaf fólki sé list en ekki einfaldur og bláber dónaskapur.

Íslensk menning morar í dæmum um hvernig argasti dónaskapur eins getur verið tær list fyrir öðrum og hefur löngum verið hagkvæm leið til afgreiðslu á fólki sem ekki fellur í kramið að kalla afurðirnar klám. Muna menn ekki eftir hysteríunni sem altók samfélagið út af bókum Guðbergs Bergssonar, "Tómas Jónsson metsölubók" og "Ásti samlyndra hjóna"? eða sýningunni hans Stefáns Stórvals sem var lokað hið snarasta vegna myndarinnar "Vorleikur", smásögum Ástu Sigurðardóttur, japanska "listamanninum" með trafið um bibban á sér en að öðru leiti hviknakinn á Lækjartorgi eða pissiríinu hjá listaskólanemunum á dögunum svo fáein dæmi séu valin af handahófi. Er þó algjörlega sneitt hjá frjóum akri kvikmynda og sjónvarpsefnis undanfarinna áratuga í þessum efnum.

Það er því eðlileg krafa að bjargvættur heimsins, Sóley Tómasdóttir, hafi nokkuð á hreinu hvað það er sem hún er á móti í sinni vanþakklátu baráttu við að frelsa fólk frá sjálfu sér.

Og í því samhengi er rétt að Sóley hafi í huga að það er fráleitt ný sannindi að framboð á mannkynsfrelsurum sé meira en eftirspurn og hefðu þeir margir mátt þakka fyrir að lenda ekki verr útúr því en að verða fyrir aðkasti í Silfri Egils.

Hugsum til allra þeirra sem hafa verið fjötraðir, barðir, grýttir og drepnir á hin fjölbreytilegasta hátt í gegn um tíðina fyrir það eitt að hafa skoðanir sem gengu í berhögg við opinberan sannleika, skilgreindan í lögum.


Göbbels heitnum skemmt

Einn alsnotrasti verkmaður Þjðóðernisjafnaðarmanna í Þriðja ríkinu var Jósef karlinn Göbbels áróðursmálaráðherra. Honum var í ríkum mæli gefin sú list að segja að svart væri hvítt og styðja það  svo föstum og haldgóðum rökum að innan tíðar rann það upp fyrir þeim sem á hlýddu að auðvitað var þetta rétt. Jafnframt áttuðu menn sig á því að raddir þeirra sem vildu halda sig við það sem augun og önnur skinfæri héldu fram að væri staðreynd voru ósköp hjáróma og falskar og báru í besta falli vott um barnaskap en í versta falli annarleg og óholl sjónarmið.

Þessi æðstiprestur og fyrirmynd spunameistara nútímans hefur margoft komið upp í huga mér undanfarna daga þegar hinar og þessar dindilhosur VG hafa farið hamförum gegn þeim sem hafa á opinberum vettvangi vogað sér að gera athugasemdir við hugmyndir "formannsins" Steingríms J. um hugsanalögreglu á netinu. Reyndar hefur "formaðurinn" einnig farið mikinn og beitt alkunnum brögðum til að gera andstæðinga sína tortryggilega; meðal annars brigslað þeim um að vilja ekki hrófla við barnaklámi á netinu og svo framvegis.

Önnur aðferð sem er afar vinsæl ef sá sem skal fá að kenna á vendinum er Samfylkingarmaður er að tala niður til viðkomandi, klappa honum á kollinn og segja sem svo að svona tal sé afskaplega ljótt og eigi ekki að þekkjast þega hugmyndir VG séu annarsvegar. Yndislegt dæmi um þetta er athugasemd Andreu Ólafsdóttur við bloggi Guðmundar "nokkurs" Steingrímssonar

Ferleg vitleysa er þetta endalaust í þér Gummi minn. Þetta fer alveg að fara fram úr öllu hófi hjá þér. Þú ert alveg hreint ótrúlegur í þínum málflutningi og virðist ekki ætla þér annað en að reyna að slá ryki í augu fólks. Það sem þú segir með netlögregluna er bara útúrsnúningur og bull í þér. Já, beinlínis er um bull að ræða því þar er EKKI verið að tala um ritskoðun, heldur einungis um heimildir til að upplýsa glæpi sem fara fram á netinu. Vertu pínulítið upplýstari áður en þú gagnrýnir hugmyndir fólks. Þú virðist ekki fróður um að íslensk lög banna dreifingu á klámi og því eðlilegt að ætla að sporna við því, bæði á netinu og í verslunum. Það er enginn að tala um ritskoðun í því sambandi eða að fylgjast með netnotkun fólks. Þvílíka bullið í þér kæri drengur.

Liggur þetta nú ekki í augum uppi? Þarf frekari vitnana við? Auðvitað er klám bannað í íslenskum lögum og skal upprætt og fjarlægt hvar sem í það næst. Þetta er auðvitað sólarklárt að VG vill bara framfylgja lögum sem þegar eru í gildi, hér er semsagt ekkert verið að búa neitt til sem ekki hafi verið áður.

Gott og vel, höfum þetta fyrir réttmætt sjónarmið skamma stund og prófum hvert það leiðir okkur. Eins og alkunna er þá liggur við því blátt bann að auglýsa tóbak og áfengi á Íslandi. Í því sambandi er vert að hafa í huga að hvað sé TÓBAK og ÁFENGI liggur fyrir skýrt og greinilega skilgreint í hugum almennings og lögum. Auk þess er harðbannað að fjalla um tóbak í fjölmiðlum nema á neikvæðan hátt.

Hvers vegna beitir lögregludeild VG sér ekki fyrir því að þessum óhroða sé útrýmt af netinu, í það minnsta að komið sé í veg fyrir að almúginn fái að berja þennan ósóma augum? Netið er auk þess ekki eini staðurinn þar sem hægt er að lenda í því að fremja hugsanaglæpi á þessu sviði. Inn í landið flæða óátalið blöð og tímarit þar sem þessi varningur er auglýstur purkunarlaust og útyfir tekur þar sem þessi sömu blöð eru þar að auki að birta klámefni. Þá er ógetið uppspretta eins og Amazon og E-bay þar sem ýmislegt er falboðið sem ekki samræmist fyllilega íslenskum lögum (einkennilegt hvað er stutt frá orðinu "íslensk lög" yfir í "islömsk lög".

Nei hér verður að spyrna við fótum og það strax ef á að takast að byrgja brunninn. Það þarf að stofna þessa lögreglu strax og láta hana hafa það valdsvið sem dugir.

Á millistríðsárunum voru gerðar róttækar breytingar á lögregluliði höfuðstaðarins og meðal annars var árið 1940 skipaður nýr lögreglustjóri, Agnar Kofoed Hansen. Allt var þetta hluti af framsóknarvæðingu lögreglunnar í Reykjavík sem hófst svo um munaði þegar Hermann Jónasson varð lögreglustjóri 1929. Sú framsóknarvæðing heldur enn og er að líkindum síðasta augljósa fingrafar Jónasar frá Hriflu á íslensku samfélagi en nóg um það. Agnar K.H. hafði fram að þessu stundað flug og komið að flugmálum og vantaði þvi þekkingu og reynslu á lögreglustörfum og því mátti Hermann Jónasson, sem þá var orðin forsætis- og dómsmálaráðherra, skygnast um sjóndeildarhringinn og gá hvar best væri að koma honum í læri. Að athuguðu máli var bara einn staður sem kom til greina þar sem lögreglan hafði margsýnt að hún var skilvirk, dugleg og með alla nýjustu tækni í sinni þjónustu. Það var að sjálfsögðu í Þýskalandi. Himmler vissi hvað hann söng í lögreglumálum og lét almenning ekki komast upp með neinn moðreik og skipti engu á hvaða sviði var um að ræða.

Ástæða þessarra hugleiðinga er að sjálfsögðu sú hvert dómsmálaráðherra VG muni snúa sér til að mennta lögreglustjórann í netsiðferðishugsanalögreglu sinni eftir kosningar. Svarið liggur í augum uppi. Auðvitað verður hann sendur til Saudi-Arabíu á skóla hjá trúarlögreglunni þar. Á þeim bænum er sko ekki verið að snúa roðið tvisvar í tíkina. Allt það sem við höfum bannað í okkar lögum er líka bannað þar auk þess sem þeir ganga eilítið lengra í forvarnarstarfi til að kona í veg fyrir siðferðis, hugsana og trúarglæpi. Til dæmis eru konur skikkaðar til að hylja líkama sinn á almannafæri og gildir þá einu hvort um er að ræða borgara ríkisins eða  gesti, jafnvel opinbera gesti eins og þingkonur frá Íslandi. Reyndar var ekki gengið eins langt gagnvart þeim og heimakonum en samt fengu þær að átta sig á að það yrði ekki liðið að þær flöngsuðust með hárið laust og óhulið.

Er þetta ekki dásamleg framtíðarsýn?  Til þess að manna lögregluna meðan verið væri að mennta tilskilinn fjölda löggæslumanna mætti sem hægast flytja inn nokkra Talibana sem Stóri Satan í vestri gerði atvinnulausa hérna um árið.

Enn sem fyrr setur að mér ónotahroll.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband