Það kostar að bjarga heiminum

Sóley Tómasdóttir heldur úti bloggi undir hinu hógværa nafni "Sóley bjargar heiminum!" Þar ræðir hún málefni dagsins út frá sjónarhorni róttæks feminisma. Allt gott og blessað enda skulu í það minnsta 100 blóm spretta í netheimum svo vitnað sé í áttina að Maó.  Þarna fór hún mikinn í tengslum við klámráðstefnuna góðu sem bændur forðuðu okkur frá og var fyrir vikið fengin í Silfur Egils til að ræða málin sem eðlilegt og sjálfsagt er. Þáttinn má skoða á slóðinni:  http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/section?Category=VEFMIDLAR&Template=VefTV&ChannelID=10&ProgID=30358&ProgType=2001&progCItems=1

Í ljósi þessarar frammistöðu Sóleyjar er verulega merkilegt að lesa pistil hennar á áðurnefndri bloggsíðu þar sem hún ber sig hörmulega undan vonsku heimsins (lesist karla).

http://soley.blog.is/blog/soley/entry/137893/

Læt pistilinn fylgja til að spara mönnum (æ þarna fór ég illa að ráði mínu) ... afsakið lesendum sporin.

Egill Helgason bað mig um að koma í Silfrið hans fyrr í vikunni. Öðruvísi mér áður brá. Ég þáði boðið og tók þátt í umræðunum í dag.

Ræddum um klám. Það var hrikalega erfitt, sérstaklega þar sem hin órjúfanlegu tengsl milli ofbeldis, kláms og vændis virðast vera ofar skilningi fólks. Sú þekking sem skapast hefur á margra ára ferli Stígamóta sem og innan kynjafræðinnar er að engu höfð, heldur leyfir fólk sér að fullyrða út frá eigin brjóstviti um alls kyns hluti sem eiga sér engar stoðir í raunveruleikanum.

Verst af öllu finnst mér þegar andmælendur mínir ætlast til þess að ég skilgreini hvað klám sé. Að ég eigi að bera ábyrgð á lagasetningum stjórnvalda og segja til um hvað sé refsivert og hvað ekki. Ég tek ekki þátt í slíku. Raunar held ég að 210. grein Almennra hegningarlaga eigi fáa sína líka, þar er tekið fram að framleiðsla, innflutningur og dreifing kláms sé refsiverð, en hvergi skilgreint hvað klám sé í raun og veru.

Það ætti því að vera forgangsatriði hjá löggjafanum að skilgreina klám. Að þeirri skilgreiningarvinnu þurfa að koma lögfræðingar, félagsfræðingar, félagsráðgjafar og kynjafræðingar auk hagsmunasamtaka á borð við Stígamót.

Er annars komin með ógeð á umræðunni um forræðishyggju og Stalínisma í tengslum við það eitt að Vinstri græn vilja útrýma kynbundnu ofbeldi. Ítreka undrun mína á því að fólk sé tilbúið að láta leita á sér vegna mögulegs spægipylsuinnflutnings en verji "frelsið" til að neyta kláms.

Setningin sem ég undirstrikaði vakti alveg sérstaka athygli mína því annarstaðar á vefsíðu Sóleyjar stendur svo sannarlega ekki á skilgreiningum hugtaka. Má sem dæmi vitna í grein sem heitir "Femínismi 233 - róttækur femínismi" http://soley.blog.is/blog/soley/entry/124288/ en þar segir meðal annars:

Í upphafi er rétt - svona til að forðast misskilning - að skilgreina róttækni. Róttækur er skv. Orðabók Menningarsjóðs einhver sem vill breyta einhverju frá rótum.

Semsagt ekkert mál, bara að fletta upp í þeirri mætu bók Orðabók Menningarsjóðs og leita að viðkomandi orði og þar með er það komið. Er kannski orðið "klám" ekki að finna í eintaki Sóleyjar af áðurnefndri bók? Eða reif hún hana úr henni samkvæmt þeirri kenningu Gamla testamentisins að  auga sem hneykslar skuli stungið út?

Mig langar til að rétta Sóleyju hjálparhönd í þessum aðventuraunum og benda henni á skilgreiningu áðurnefndrar orðabókar á orðinu "klám", en hana er að finna á bls. 784 í fyrra byndi verksins; útgáfunni frá 2002.

Klám -s HK 1 grófgert, illa unnið verk 2 gróf orð, klúryrði (einkum um kynferðismál eða kynfæri) málfar, mynd eða annað sem beinir athyglinni að kynlífi eða kynfærum án nauðsynjar í listrænu samhengi, fræðslu e. þ. h. klámmynd / klámrit / klámsaga / klámsýning / klámvísa / dýraklám klámefni sem byggist á kynlífi með þátttöku dýra / barnaklám

Svo mörg eru þau orð en vona að mér sé fyrirgefið að hafa þurft að sleppa rittáknum sem ég nennti ekki að möndla við að sækja.

Þarna kemur fram það sem oft hefur orðið þeim fótakefli sem hafa viljað láta refsivöndin ríða um bök og lendar klámhunda allra tíma; semsé þessi andstyggðar krafa um sýnt sé framá að það sem gengur framaf fólki sé list en ekki einfaldur og bláber dónaskapur.

Íslensk menning morar í dæmum um hvernig argasti dónaskapur eins getur verið tær list fyrir öðrum og hefur löngum verið hagkvæm leið til afgreiðslu á fólki sem ekki fellur í kramið að kalla afurðirnar klám. Muna menn ekki eftir hysteríunni sem altók samfélagið út af bókum Guðbergs Bergssonar, "Tómas Jónsson metsölubók" og "Ásti samlyndra hjóna"? eða sýningunni hans Stefáns Stórvals sem var lokað hið snarasta vegna myndarinnar "Vorleikur", smásögum Ástu Sigurðardóttur, japanska "listamanninum" með trafið um bibban á sér en að öðru leiti hviknakinn á Lækjartorgi eða pissiríinu hjá listaskólanemunum á dögunum svo fáein dæmi séu valin af handahófi. Er þó algjörlega sneitt hjá frjóum akri kvikmynda og sjónvarpsefnis undanfarinna áratuga í þessum efnum.

Það er því eðlileg krafa að bjargvættur heimsins, Sóley Tómasdóttir, hafi nokkuð á hreinu hvað það er sem hún er á móti í sinni vanþakklátu baráttu við að frelsa fólk frá sjálfu sér.

Og í því samhengi er rétt að Sóley hafi í huga að það er fráleitt ný sannindi að framboð á mannkynsfrelsurum sé meira en eftirspurn og hefðu þeir margir mátt þakka fyrir að lenda ekki verr útúr því en að verða fyrir aðkasti í Silfri Egils.

Hugsum til allra þeirra sem hafa verið fjötraðir, barðir, grýttir og drepnir á hin fjölbreytilegasta hátt í gegn um tíðina fyrir það eitt að hafa skoðanir sem gengu í berhögg við opinberan sannleika, skilgreindan í lögum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband