Göbbels heitnum skemmt

Einn alsnotrasti verkmaður Þjðóðernisjafnaðarmanna í Þriðja ríkinu var Jósef karlinn Göbbels áróðursmálaráðherra. Honum var í ríkum mæli gefin sú list að segja að svart væri hvítt og styðja það  svo föstum og haldgóðum rökum að innan tíðar rann það upp fyrir þeim sem á hlýddu að auðvitað var þetta rétt. Jafnframt áttuðu menn sig á því að raddir þeirra sem vildu halda sig við það sem augun og önnur skinfæri héldu fram að væri staðreynd voru ósköp hjáróma og falskar og báru í besta falli vott um barnaskap en í versta falli annarleg og óholl sjónarmið.

Þessi æðstiprestur og fyrirmynd spunameistara nútímans hefur margoft komið upp í huga mér undanfarna daga þegar hinar og þessar dindilhosur VG hafa farið hamförum gegn þeim sem hafa á opinberum vettvangi vogað sér að gera athugasemdir við hugmyndir "formannsins" Steingríms J. um hugsanalögreglu á netinu. Reyndar hefur "formaðurinn" einnig farið mikinn og beitt alkunnum brögðum til að gera andstæðinga sína tortryggilega; meðal annars brigslað þeim um að vilja ekki hrófla við barnaklámi á netinu og svo framvegis.

Önnur aðferð sem er afar vinsæl ef sá sem skal fá að kenna á vendinum er Samfylkingarmaður er að tala niður til viðkomandi, klappa honum á kollinn og segja sem svo að svona tal sé afskaplega ljótt og eigi ekki að þekkjast þega hugmyndir VG séu annarsvegar. Yndislegt dæmi um þetta er athugasemd Andreu Ólafsdóttur við bloggi Guðmundar "nokkurs" Steingrímssonar

Ferleg vitleysa er þetta endalaust í þér Gummi minn. Þetta fer alveg að fara fram úr öllu hófi hjá þér. Þú ert alveg hreint ótrúlegur í þínum málflutningi og virðist ekki ætla þér annað en að reyna að slá ryki í augu fólks. Það sem þú segir með netlögregluna er bara útúrsnúningur og bull í þér. Já, beinlínis er um bull að ræða því þar er EKKI verið að tala um ritskoðun, heldur einungis um heimildir til að upplýsa glæpi sem fara fram á netinu. Vertu pínulítið upplýstari áður en þú gagnrýnir hugmyndir fólks. Þú virðist ekki fróður um að íslensk lög banna dreifingu á klámi og því eðlilegt að ætla að sporna við því, bæði á netinu og í verslunum. Það er enginn að tala um ritskoðun í því sambandi eða að fylgjast með netnotkun fólks. Þvílíka bullið í þér kæri drengur.

Liggur þetta nú ekki í augum uppi? Þarf frekari vitnana við? Auðvitað er klám bannað í íslenskum lögum og skal upprætt og fjarlægt hvar sem í það næst. Þetta er auðvitað sólarklárt að VG vill bara framfylgja lögum sem þegar eru í gildi, hér er semsagt ekkert verið að búa neitt til sem ekki hafi verið áður.

Gott og vel, höfum þetta fyrir réttmætt sjónarmið skamma stund og prófum hvert það leiðir okkur. Eins og alkunna er þá liggur við því blátt bann að auglýsa tóbak og áfengi á Íslandi. Í því sambandi er vert að hafa í huga að hvað sé TÓBAK og ÁFENGI liggur fyrir skýrt og greinilega skilgreint í hugum almennings og lögum. Auk þess er harðbannað að fjalla um tóbak í fjölmiðlum nema á neikvæðan hátt.

Hvers vegna beitir lögregludeild VG sér ekki fyrir því að þessum óhroða sé útrýmt af netinu, í það minnsta að komið sé í veg fyrir að almúginn fái að berja þennan ósóma augum? Netið er auk þess ekki eini staðurinn þar sem hægt er að lenda í því að fremja hugsanaglæpi á þessu sviði. Inn í landið flæða óátalið blöð og tímarit þar sem þessi varningur er auglýstur purkunarlaust og útyfir tekur þar sem þessi sömu blöð eru þar að auki að birta klámefni. Þá er ógetið uppspretta eins og Amazon og E-bay þar sem ýmislegt er falboðið sem ekki samræmist fyllilega íslenskum lögum (einkennilegt hvað er stutt frá orðinu "íslensk lög" yfir í "islömsk lög".

Nei hér verður að spyrna við fótum og það strax ef á að takast að byrgja brunninn. Það þarf að stofna þessa lögreglu strax og láta hana hafa það valdsvið sem dugir.

Á millistríðsárunum voru gerðar róttækar breytingar á lögregluliði höfuðstaðarins og meðal annars var árið 1940 skipaður nýr lögreglustjóri, Agnar Kofoed Hansen. Allt var þetta hluti af framsóknarvæðingu lögreglunnar í Reykjavík sem hófst svo um munaði þegar Hermann Jónasson varð lögreglustjóri 1929. Sú framsóknarvæðing heldur enn og er að líkindum síðasta augljósa fingrafar Jónasar frá Hriflu á íslensku samfélagi en nóg um það. Agnar K.H. hafði fram að þessu stundað flug og komið að flugmálum og vantaði þvi þekkingu og reynslu á lögreglustörfum og því mátti Hermann Jónasson, sem þá var orðin forsætis- og dómsmálaráðherra, skygnast um sjóndeildarhringinn og gá hvar best væri að koma honum í læri. Að athuguðu máli var bara einn staður sem kom til greina þar sem lögreglan hafði margsýnt að hún var skilvirk, dugleg og með alla nýjustu tækni í sinni þjónustu. Það var að sjálfsögðu í Þýskalandi. Himmler vissi hvað hann söng í lögreglumálum og lét almenning ekki komast upp með neinn moðreik og skipti engu á hvaða sviði var um að ræða.

Ástæða þessarra hugleiðinga er að sjálfsögðu sú hvert dómsmálaráðherra VG muni snúa sér til að mennta lögreglustjórann í netsiðferðishugsanalögreglu sinni eftir kosningar. Svarið liggur í augum uppi. Auðvitað verður hann sendur til Saudi-Arabíu á skóla hjá trúarlögreglunni þar. Á þeim bænum er sko ekki verið að snúa roðið tvisvar í tíkina. Allt það sem við höfum bannað í okkar lögum er líka bannað þar auk þess sem þeir ganga eilítið lengra í forvarnarstarfi til að kona í veg fyrir siðferðis, hugsana og trúarglæpi. Til dæmis eru konur skikkaðar til að hylja líkama sinn á almannafæri og gildir þá einu hvort um er að ræða borgara ríkisins eða  gesti, jafnvel opinbera gesti eins og þingkonur frá Íslandi. Reyndar var ekki gengið eins langt gagnvart þeim og heimakonum en samt fengu þær að átta sig á að það yrði ekki liðið að þær flöngsuðust með hárið laust og óhulið.

Er þetta ekki dásamleg framtíðarsýn?  Til þess að manna lögregluna meðan verið væri að mennta tilskilinn fjölda löggæslumanna mætti sem hægast flytja inn nokkra Talibana sem Stóri Satan í vestri gerði atvinnulausa hérna um árið.

Enn sem fyrr setur að mér ónotahroll.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband