Steingrímur J. og hermangið

S_J_SAð undanförnu hafa verið að birtast á blogginu þarfar upprifjanir á forpokuðum afturhaldsviðbrögðum gömlu allaballana og erfðaprinsins þeirra Steingríms Jóhanns Sigfússonar við ýmsum framfaramálum á undanförnum áratugum. Þar held ég að umræðan um litasjónvarpið hafi verið toppurinn.

Í fyrradag, 24. var á bloggsíðu Eyþórs Arnalds tilvitnun í tillöguflutning SJS gegn flugstöðinni í Keflavík og öllu henni viðkomandi. Við það tækifæri fann hann þessu húsi allt til foráttu og lýsti í löngu máli hvursu arfavitlaus þessi framkvæmd væri en útyfir tekur þó hvernig skuli fjármagna hana, ráðamenn hafi farið hverja betliferðina annari aumlegri vestur um haf til að sníkja pening. Ræðan var í Castróstíl og því nenni ég ekki að endurbirta hana en hér er tengill á færsluna hjá EA http://ea.blog.is/blog/ea/entry/187763/ Eins og venjulega nokkuð lipur texti hjá Steingrími en sannar það sem menn veltu fyrir sér hérna um árið þegar spurt var: "Hvernig veistu að vinstrimenn eru að bulla? Þeir opna munninn og tala."

En að öðru. Í athugasemdum við þessa færslu var verið að auglýsa eftir einhverju sem SJS hefði gert eða komið að eða verið samþykkur, sem til framfara horfði á sínum langa pólitíska ferli. Fljótt á litið er það ekki margt en þó er hann í þeirri afar slæmu stöðu að vilja ekki hampa því sem ætti að halda nafni hans á lofti um ókomna tíð.

Hann var nefnilega ráðherra samgöngumála í tveimur ríkisstjórnum Steingríms Hermannssonar á árunum 1988 til 1991. Sem slíkur var hann ráðherra fjarskiptamála og sá um að koma af stað lagningu ljósleiðara hringinn kringum landið. Stórkostleg framkvæmd og afar nútímaleg en hann minntist ekki á þetta einu orði í kosningabaráttunni '91 og hefði þó að sönnu mátt nota þetta til að slá sig til riddara.

En nú kunna menn að spyrja afhverju hann þagði þunnu hljóði um þetta brautryðjenda starf og framfarskref; það stærsta í hans ráðherratíð? (fyrir utan að malbika veginn frá Þórshöfn í Gunnarsstaði). Svarið er einfalt. Verkið var nefnilega unnið í þágu Bandaríkjamanna sem þurftu á þessum ljósleiðara að halda til að koma merkjum til Keflavíkur frá nýrri syrpu af radarstöðvum sem þá var búið að reisa vítt um land. Verkið var semsagt kostað með fyrirfram greiddri leigu og unnið af miklum hraða. Nato og bandaríski herinn borguðu.

Auðvitað hefði þetta aldrei komið til ef Steingrímur og skoðanabræður hans hefðu getað komið í veg fyrir byggingu þessarra stöðva á sínum tíma. Þá er það nokkuð ljóst að ef SJS hefði ráðið sjálfur hefði þessi ljósleiðari aldrei verið lagður en hann komst að sjálfsögðu ekki upp með annað en segja já og amen og standa að þessari aðgerð sem er eins sólarklárt dæmi um "hermang" eins og hægt er að hugsa sér.

En um þetta ríkir grafarþögn.

Vildi bara koma þessu á framfæri svo menn héldu ekki að kallinn væri gjörsamlega ónýtur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband