Forsætisráðherraefni á síðasta séns?

ISGVar að horfa á formannskynningu Stöðvar 2 í kvöld en þar var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar í nærmynd. Ég verð að segja að mér fannst þeir ganga heldur nærri forsætisráðherraefninu, maður sá fullgreinilega á henni "best fyrir" dagsetninguna; nefnilega 12. maí.

Eins og að undaförnu gróf hún sína gröf sjálf í þessum þætti, reyndar með ljúflegri aðstoð svilans fiskfróða sem sendi henni hverja skítapilluna á fætur annari og toppaði með því að lauma því útúr sér að nú væri vaxandi útlit á að hún yrði forsætisráðherra og glotti kalt allan hringinn.

Mér fannst hún taka dýpstu skóflustungurnar þegar hún lýsti því yfir að hún hefði verið komin á fremsta hlunn með að hætta í pólitík þegar hún komst ekki upp með að vera á lista Samfylkingarinnar í landsmálunum og jafnframt borgarstjóri í Reykjavík og má með sanni segja að þar hefndu VG og framsókn í héraði þess sem hallaði á Alþingi. Hún hafði nefnilega ætlað sér að hafa borgarstjórann í bakhöndinni ef svo færi sem varð að hún kæmist ekki á þing.

Þarna urðu vatnaskil í hennar pólitíska ferli og hún mun aldrei fyrirgefa samstarfsflokkunum hvernig þeir settu henni stólin fyrir dyrnar. Hingað til hafði þessi stjórnmálamaður ekki þurft að hafa fyrir neinu; hún benti og hún fékk enda sagði hún í sjónvarpinu að hún væri hvorki tilbúin að hætta að vera borgarstjóri né hætta við framboðið og varð svo að éta það allt ofaní sig og snauta hnípin á dyr úr ráðhúsinu.

Össur komst svo smekklega að orði í þættinum að svilkonan væri þannig skapi farin og hefði þannig reynslu að hún kynni svona heldur verr við sig í minnihluta. Um skapið veit ég ekki en reynslan úr borginni var á einn veg. ISG leiddi aldrei listann heldur var í 8. sæti. Hvers vegna var það? Jú þetta þótti hið mesta snjallræði; setja þennan frábæra leiðtoga og sameiningartákn í baráttusætið. En við mér blasti alla tíð hin hliðin á peningnum, semsé sú að hún hafði ekki minnsta áhuga á að vera í minnihluta í borgarstjórn. Ef svo hefði farið gat hún alltaf sagt "Far vel Hosa" svo vitnað sé í Kristrúnu í Hamravík.

Mér fannst þessi þáttur marka tímamót. Við áhorfendum blasti uppgefin, þreytt og ráðvillt manneskja sem hefur gert sér grein fyrir hroðalegri stöðu flokksins sem hún leiðir og sinni eigin stöðu sem fallkandidats brostinna vona án þess að skilja neitt í því hvers vegna svona er komið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband