28.2.2007 | 00:13
Fæddur fótur
Sá áðan að einstaklingar úr "Átakshópi öryrkja" eru búnir að ákveða að stofna stjórnmálaafl og bjóða fram. Þessi tímamótaárangur náðist á fundi "Baráttuhóps eldri borgara og öryrkja" http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1255900
Húrra fyrir þeim. Sjálfur er ég öryrki en minnist þess ekki að ég hafi verið spurður hvort þetta lið mætti bjóða fram í mínu nafni.
Þegar litið er yfir fréttatilkynninguna eða það sem birtist á Mbl.is þá er ekki hægt annað en fagna því að jólasveinninn sé kominn til byggða svona líka eldsnemma þetta árið. Hitt er svo annað mál að minn sljói heili áttar sig ekki alveg á því sem kemur þarna fram. Má ekki skilja þetta sem svo að þarna sé á ferðinni klofningshópur úr "Átakshópi öryrkja"? Eru þeir að ná saman við 16. desemberhópinn hjá öldruðum? Hvaða fólk er þetta? Af hverju var þetta ákveðið á sunnudaginn síðasta en kemur ekki fram fyrr en á þriðjudag?
Aðdragandi framboðs öryrkja og eldri borgara sem virðist ná endapunkti með þessari tilkynningu minnir mig óneitanlega á ástandið yst á vinstrivængnum hérna í gamla daga þegar örflokkarnir klofnuðu hver um annan þveran vegna deilna um keisarans skegg og urðu svo litlir og sérhæfðir að þar rúmuðust varla nógu margir til að mynda stjórn í apparatinu.
Það er greinilegt á öllu að þetta væna fólk sem að framboðinu stendur vill vera svo undurgott við alla. Sérstaka athygli mína vakti lokagreinin en hún hljóðar svo:
"Flokkurinn heitir því að standa ekki að inngöngu í ESB eða upptöku Evru í stað krónu án þess að vilji þjóðarinnar til þess sé staðfestur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hið sama gildir um einkavæðingu þeirra ríkisstofnana, fyrirtækja, þjónustu og mannvirkja sem eru undirstaða að menntun, menningu, velferð, frelsi, mannúð, sjálfstæði þjóðarinnar og hvers einstaklings. Hið sama á við um meiriháttar jarðrask s.s. vegna stíflugerða og lagningar vega um viðkvæm svæði.
Nú er það eins með skortinn á upplýsingum um nöfn þess góða fólks sem að þessu stendur að hvergi er minnst á hvað barnið á að heita en það hlýtur að teljast nokkuð gott að flokkur sem ekki er til og ekki hefur hlotið nafn (er ekki nafnið "Flokkurinn" frátekið) skuli heita því að breyta ekki stjórnarskránni án þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þá er gott að vita að hann vill ekki einkavæða frelsi manna með nokkrum hætti og ætlar að tryggja þjóðaratkvæðagreiðslu um vegarspotta og undirstöður mannúðar. Hvað er meiriháttar jarðrask? Hver er undirstaða mannúðar á Íslandi? Er það kirkjan? Eða trú almennt? Hvað skerðir sjálfstæði (og frelsi) hvers einstaklings? Eru það ekki lögin eins og þau leggja sig? Þarf ekki að byrja á að leggja allt lagasafnið og reglugerðarfarganið eins og það leggur sig undir þjóðaratkvæði og síðan öll þau lög sem hugsanlega verða sett í framtíðinni og gætu hróflað við sjálfstæði mínu eða annara einstaklinga? Verður þá ekki hent í buskann öllum lögum og reglum um umhverfismat vegna vegagerðar og hlutirnir einfaldlega ákveðnir í þjóðaratkvæðagreiðslu?
Þetta er bara eitt plagg og það fyrsta. Ég get varla beðið eftir að sjá meira.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.