Lausnin fundin?

Loksins er útlit fyrir að leitinni miklu að lagaskilgreiningu þess hvað kallist klám sé lokið.  Á bloggi sínu dregur Halldór Reynir Halldórsson, laganemi og formaður Orators, félags laganema http://halldor.blog.is/blog/halldor/entry/139469/ fram hæstaréttardóm frá árinu 2000 http://www.haestirettur.is/domar?nr=1102 þar sem þessi sannindi eru gerð lýðum ljós:

Af hálfu sérfræðinganefndar Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna var í mars 1986 gerður greinarmunur á hugtökunum klámi (pornografia) og kynþokkalist (erotika), þannig, að klám var skilgreint sem ögrandi framsetning á kynlífi í auðgunartilgangi, án ástar, blíðu eða ábyrgðar, en kynþokkalist sem bókmenntaleg eða listræn tjáning ástar.

Þetta finnst mér áríðandi að komi fram, sérstaklega í ljósi athugasemda minna hér við skilgreiningarskort Sóleyjar Tómasdóttur á téðu hugtaki. Nú getur hún semsagt mætt hjá Agli Helga eða hverjum sem er og slegið um sig með þessari skilgreiningu sem hefur hlotið vottun hjá Hæstarétti og á uppruna sinn hjá móðurstofnun UNIFEM, Sameinuðu þjóðunum auk þess sem hún flísfellur að slagorði sem VG hafði uppi á landsfundi um að frelsa ástina (var ekki einhverntíma talað um frjálsar ástir?).

Ætli það verði svo ekki í verkahring siðferðislögreglu VG að skilgreina hvenær fólk er að gera do án þess að uppfylla skilyrðin í þessari klásúlu? Smeikur er ég um að okkur dauðlegum, mörgum hverjum, gæti förlast að halda  listræna bókmenntasvipnum alla leið út í gegn. Að minnsta kosti stundum.

Alveg er ég handviss um að Halldór þessi á bjarta framtíð fyrir höndum sem lögfræðingur að námi loknu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband