22.4.2007 | 23:53
Jón Baldvin á fullu í bullinu
Því virðast engin takmörk hvað Jón gamli Baldvin fær að bulla í silfri Egils. Hann virðist vera orðinn einhver sérstakur álitsgjafi hjá sjálfum erkiálitsgjafanum Agli og fær þar að geisa um víðan völl og drulla yfir allt og alla án þess hann sé spurður útí vitleysuna.
Í dag gekk hann alveg framaf mér þegar hann eignaði vinstrivillingastjórn Steingríms Hermannssonar heiðurinn af því að EES komst í gegn. Maðurinn hlýtur að vera farinn að þjást af verulegum elliglöpum.
Er hann búinn að gleyma meginástæðu þess að hann myndaði Viðeyjarstjórnina með Davíð? Hann einfaldlega vissi að það var ekki hægt að treysta samstarfsflokkunum til að klára málið. Ég skal vera fyrstur manna til að hrósa Jóni Baldvin fyrir að koma því máli í höfn en að hann skuli voga sér að halda því fram að kommarnir og vinstri frammararnir í þessari endemis ríkistjórn hefðu staðið með honum við að klára málið eftir kosningar það er hrein og klár lygi og hann veit það.
Það er lágmarkskrafa að hann biðji hlutaðeigendur afsökunnar og þvoi sér um munninn með sápu.
Annars er frekar farið að slá útí fyrir Agli Helga þegar hann er að leggja útaf stöðu mála, nú í aðdraganda kosninga. Hann skirfaði innfjálgan pistil á dögunum þar sem hann fjallaði um "rógsherferð" gegn Ingibjörgu Sólrúnu. Hverslags bull er þetta. Draupð úr penna hans eitt einasta orð um rógsherferðir eða einelti þegar þetta vinstralið stóð á gólinu sólarhringum saman útí Davíð Oddson? Ekki minnist ég þess enda engin að ætlast til þess og sá góði maður gat svarað fyrir sig þó hann reyndar næði þessum froðusnökkum oftar en ekki á sporbraut með því að svara þeim alls ekki.
Svo var það um dagin þegar Egill var að leggja út af stjórnarmynstrum eftir kosningar og nefndi að framsókn gæti sem best orðið þriðja hjól undir vinstri vagninum, þeir kynnu þetta vel og sprengdu aldrei stjórnarsamstarf. Er Egill búinn að gleyma því þegar þeir fóstbræður Steingrímur sem þá var formaður framsóknar og Jón Baldvin sem þá var formaður Alþýðuflokksins slátruðu ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar í beinni útsendingu á Stöð Tvö um miðjan september 1988?
Jón Baldvin Hannibalsson sýndi þá sitt rétta eðli og átti ekki langt að sækja það. Faðir hans blessaður var merkis maður og harður baráttumaður fyrir sitt fólk en hann var haldinn nokkuð sterkri pólitískri sjálfseyðingarhvöt og hafði sérstakt lag á að taka aðra með sér í fallinu en svo lauk hans pólitíska ferli og hann fór á sínar heimaslóðir og settist á friðarstól þar. Bjarni Guðnason sagði eitthvað á þá leið að það væri fínt að kallinn væri að hætta og fara vestur í Selárdal og þar gæti hann svo þjónað lund sinni við að kljúfa rekavið en ekki flokka. Ég held að Jón Baldvin ætti að hafa vit á að setjast á sinn eldhúskoll sem hvern annan friðarstól í Mosfellsbænum og hætta þessu þrugli. Hann verður að átta sig á því að hann er ekki lengur í pólitík. Hvað skyldur vinstrivillingarnir segja ef Davíð hagaði sér svona?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.