1.5.2007 | 21:18
Stendur við fullyrðingar! Og hvað?
Það kom fram í kvöldfréttum að Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, hefði fullyrt að Landsvirkjun yrði seld eftir kosningar ef núverandi stjórn héldi áfram. (hér er tengill á fréttina)
Þetta er náttúrulega djúphugsað hjá þessum snillingi sem ég þekki svosem ekki neitt en hann er æði langt frá því að hafa fundiði svona nokkuð upp. Það var fyrir margt löngu Richard Nixon fullkomnaði svona vinnubrögð undir vinnuheitinu "let them deni" og fólst í því að kasta fram einhverju sem hugsanlega gæti komið andstæðingnum illa og láta hann bera af sér. Engu máli skipti hversu ruglað, rætið eða ósanngjarnt atferli var borið upp á viðkomandi því sögð orð urðu ekki aftur tekin og maskína farin að snúast. Sá sem kastar þessu fram dregur sig í hlé og lætur hina ásökuðu um að tala.
Þessari aðferð var síðast beitt í íslenskum stjórnmálum með snilldarárangri þegar Steingrímur Hermannsson gerði áhuga annarra flokka en Framsóknar á að ganga í Evrópusambandið að kosningamáli 1991. Hann henti þessu framm korteri fyrir kosningar og slagorði Framsóknar varð "X-B, ekki EB". Þetta athæfi sendi Alþýðuflokkinn beint í fangið á Sjálfstæðisflokkinn eftir kosningar þó svo að Jón Baldvin kjósi nú að gleyma því öllu.
Nú er það spurningin; hvernig verður unnið úr þessu máli? Mér finnst stjórnarflokarnir eigi að láta þetta eins og vind um eyru þjóta, láta kallinn halda áfram með málið og blaðra sig út í fenið ef hann vill en ég er tilbúinn að veðja nokkrum krónum að hann mun ekki hreyfa þessu frekar enda enginn grunnur fyrir hann að standa á. Í fréttinni kemur eftirfarandi fram:
Skúli sagði í samtali við fréttastofu Útvarps að hann stæði við fullyrðingar sínar í ræðunni.
Og hvað svo? Eins og ég sagði áðan þekki ég manninn ekki neitt en samkvæmt röksemdafærslu hans í viðtalinu get ég fullyrt að hann sé að nota stöðu sína hjá Starfsgreinasambandinu til að koma höggi á pólitíska andstæðinga án þess að geta heimilda, hef ekki hugmynd um hvað maðurinn kýs þó nokkuð sé greinilegt að hann kemur ekki úr hægri hluta verkalýðsarms Framsóknarflokksins. Þessi fullyrðing mín öðlast ekki aukið vægi við það að ég segist standa við hana meðan ég færi engin haldbær rök eða sannanir fyrir máli mínu. Hún verður eftir sem áður einungis skoðun.
Svona eiga menn ekki að vinna og allra síst þeir sem koma fram í nafni fjöldahreyfingar launafólks með skylduaðild.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.